Minn allra uppáhalds vegan réttur

12 Jan 2018

Að þessu sinni ákvað ég að búa til minn uppáhalds rétt, vegan lasagne. Ég hef ekki borðað kjöt í rúm fjögur ár núna og er að auki með mjólkuróþol. Ég hef  alltaf elskað lasagne og hef þróað með mér að mínu mati fullkomna uppskrift sem hentar mínum þörfum.

Þetta lasagne er súper einfalt og alls ekki tímafrekt. Ég fékk öll hráefninn í Krónunni. 

Hér kemur uppskriftin

 • 5 heilir tómatar
 • Hálfur kúrbítur
 • 2 sætar paprikur
 • 3-5 gulrætur
 • 1 laukur
 • 1/5 af brokkolí
 • Nýrnabaunir frá Biona
 • Hakkaðir tómatar með basil
 • Heilhveiti lasagne plötur
 • Vegan ostur (ég notaði pizzaost frá Sheese)
 • 2 msk smurostur með bragðinu hot peppers frá Violife
 • Kókosrjómi frá Isola Bio

   

Ég byrja á því að kveikja á ofninum á 180°C.

Áður en ég byrja að skera grænmetið þá legg ég lasagne plöturnar í bleyti og bæti við dass af olíu til þess að plöturnar festist ekki saman. Tilgangurinn með því að láta plöturnar í bleyti er að þá mýkjast þær upp og baksturinn sjálfur tekur því minni tíma. 

Síðan skola ég allt grænmetið og sker það niður. Ég læt avocado olíu á pönnu og steiki grænmetið á lágum hita. Næst bæti ég við bæði hökkuðu tómötunum og nýrnabaununum. Mér finnst persónulega gott að láta aðeins af salt og pipar og svo má ekki gleyma mínu uppáhalds kryddi, sítrónupiparnum.
 


Á meðan að grænmetið steikist á vægum hita þá bý ég til bechamel sósuna sem fer á milli platana. Vanalega er þessi sósa búin til úr osti, mjólk og hveiti en ég hef búið til mína eigin útgáfu. Ég nota þrjú hráefni, 200 ml af kókosrjóma, 2 góðar msk af smurostinum og 1 dl af vatni. Þessi hráefni sýð ég saman þangað til að þetta er orðið að ekki of þykkri sósu. Það er mikilvægt að sjóða þessi hráefni saman á mjög vægum hita þar sem að kókosrjóminn á það til að brenna við.
Núna eru öll hráefnin tilbúin og þá er kominn tími á að raða saman hinu fullkomna lasagne. Ég byrja á því að velja mér form sem er ekki of grunnt, ég hef verið að nota hringlótt form en mér finnst það aðeins þægilegra. Ekki gleyma að spreyja formið. 
Ég byrja á því að láta botnfylli af grænmetiskássunni minni, legg síðan plötur ofaná hana og helli sósunni rétt yfir plöturnar. Síðan er þetta gert koll af kolli þangað til að formið er orðið næstum því fullt, þá strái ég góðu lagi af vegan osti yfir. Þetta fer svo inní ofn í 25 mínútur, gott er að taka lasagne-ið út og láta það standa í góðar 15 mínútur. Þá mýkjast plöturnar vel útaf sósunni og öllu gúmmelaðinu.

Ps. mér finnst lang best að búa til gott magn af þessari uppskrift því lasagne er að mínu mati best daginn eftir :-)
 

Þar til næst x,

Anna 
Instagram: annasbergmann