Fiski Taco með mangó salsa

05 Sep 2017

Mig hefur lengi langað að gera fiski taco sjálf. Ég fæ mér það stundum á veitingastöðum ýmist með rækjum eða fisk. Eftir síðasta skipti ákvað ég að prufa að gera það heima næst. Stundum eru fiskibitarnir djúpsteiktir en mig langaði í eitthvað ferskt með ávaxtasalsa eins og mango eða ananas. Eftir smá leit á netinu blandaði ég saman nokkrum uppskriftum sem ég fann. Mangó salsað passar rosalega vel með fisknum og rauðkálið ferskt og stökkt með.
 


Hráefni

1 Þroskað mangó
1 Rauðlaukur
1/4 Gúrka
Lúka af ferskum kóríander
2 lime
1/4 Rauðkálshaus
Tortilla pönnukökur
2 roðulaus fiskiflök (t.d þorskur, ýsa, lax)
Salt
Pipar
Paprikukrydd
Cumin
Chilli flögur
Rauðvínsedik
Ólífuolía

Mangó salsa og rauðkálssalat

Byrjið á því að gera mango salsað og rauðkálssalatið svo það sé tilbúið þegar þegar fiskurinn er tilbúinn.
Skerið mangóið niður í litla bita og setjið í stóra skál.
Skerið rauðlaukinn einnig smátt og setjið í skálina. Afhýðið agúrkuna og skerið í litla bita. Takið handfylli af kóríander og saxið smátt.
Hrærið öllu saman og kreistið eitt lime yfir og smá salt og pipar.

Skerið rauðkálið mjög fínt og setjið í aðra skál, hellið smá ediki yfir og hrærið saman og setjið til hliðar.
Edikið leysir aðeins upp í fjólubleika litnum og þetta verður fallega bleikt á litið.
 

Fiski Taco

Í litla skál skuliði búa til Mexíkó kryddblönduna með sirka 1/2 teskeið af öllum kryddunum, paprikukrydd, cumin, chilliflögum, salti og pipar.

Hitið pönnu á miðlungshita með smá ólífuolíu. Á meðan pannan er að hitna skuliði krydda báðar hliðar á fiskinum með mexíkósku kryddblöndunni. (Ef þið viljið ekki hafa hann sterkan getið þið líka bara saltað og piprað fiskinn). Leggið fiskinn á heitu pönnuna og steikið í 2-3 mínútur á hvorri hlið.

Grípið aðra pönnu og hitið hana upp á miðlungshita með smá olíu. Steikið tortilla pönnukönunni í um 30 sekúndur á hvorri hlið. 

Leggið tortilla pönnukökuna á disk og raðið fisknum inn í miðjuna. Setjið skeið af mangósalsanu ásamt rauðkálinu.

Þú þarft ekki að hafa sósu með þessu en það getur verið gott. Hún má samt ekki taka yfir bragðið. Ég hrærði saman smá sýrðum rjóma, limesafa og siracha sósu.

Svo finnst mér gott að hafa smá limesneið til hliðar til að kreista yfir.
Ef þú prófar þessa uppskrift þætti mér gaman að fá að vita. Skildu eftir skilaboð hér fyrir neðan, eða taktu mynd og # á myndinni á Instagram #femmeisland

Marta Rún