Eldhúsinnréttingin máluð - skref fyrir skref

06 Jun 2017

Já, það er komið að þessu. Ég er búin að fá miklar fyrirspurnir um þetta ferli svo að ég veit að margir hafa beðið eftir þessari færslu. 

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Slippfélagið

Þið sem hafið eitthvað verið að fylgjast með mér vitið að ég er að lappa upp á nýju íbúðina hægt og rólega. Og þið sem bíðið óróleg eftir framkvæmdarsnöppum frá mér á femmeisland snappinu getir róað ykkar, það kemur sá tími að ég geti farið að sýna ykkur meira. Ég vildi t.d. fyrst skrifa þessa færslu áður en ég myndi snappa innihaldið í henni, því það fer bara svo mikill tími í að svara hverjum og einum á þeim miðli. Núna get ég bent þeim fúslega á þessa færslu þar sem öllum spurningum verður svarað hvað varðar að græja og gera upp eldhúsinnréttingu. 

Að mála innréttingu...   minna mál en ég hélt, en þú þarft líka að vera þolinmóður og pínu vandvirkur. Hér koma skrefin:

1. (ef það á að skipta um höldur) Fylltu upp í þau göt sem þú ætlar ekki að nota. 
2. Taktu allar framhliðar af.
3. Sandaðu létt yfir báðum megin, þú þarft alls ekki að hamast á hurðinni, bara léttar strokur til þess að opna viðinn svo að grunnurinn grípi við honum. NOTE: Gerið þetta úti svo að þið losnið við rykið inni. 
4. Burstaðu allt ryk af plötunum. 
5. Þrífðu þær með Kalustepesu frá Tikkurila - Fæst í Slippfélaginu. Efnið þrífur alla fitu af innréttingunni, tekur glansinn og mattar það í leiðinni.
6.  Leggið þær á eitthvað undirlag með upphækkun.
7. Grunnið með Otex Akva frá Tikkurila - Fæst í Slippfélaginu. Otex er það sterkt efni að hægt er að grunna flísar með því. Ég var með dökkan lit á grunninum því ég var að fara mála síðan með svörtu. NOTE: Til eru sérstakar rúllur hjá Slippfélaginu til þess að mála innréttingar fyrir mögulegu bestu útkomuna. Gefið grunninum 5-6 klst. að þorna áður en þið farið í hina hliðina. Ein umferð með Otex grunni er nóg. 
8. Málið svo með lakkinu Helmi 10 frá Tikkurila - Fæst í Slippfélaginu. Ég vildi matta svarta áferð. Gefið lakkinu ennþá meiri tíma til þess að þorna áður en þið farið í umferð númer tvö. 


Hér eru nokkrar myndir frá ferlinu. Ég á eftir að klára nokkrar einingar svo að þið fáið að sjá framhaldið og uppsetninguna seinna. Innréttingin fyrir (bakhliðin)Öll fita burt með þessu efni, mattar yfirborðið í leiðinni.1x umferð af grunni komin á. 

1x umferð af svarta matta lakkinu komið á. Sjáið hvað áferðin er strax falleg!

Hurðirnar á fataskápunum bættust einnig við. Ekki er hægt að fóta fyrir plötum á gólfum í öllum herbergjum. Eins og ég nefndi þá er þetta þolinmæðisverk því þetta tekur tíma, en alveg þess virði. Ég hlakka svo til að setja innréttinguna upp aftur og sýna ykkar útkomuna. Ég mun líklega gera það bæði hér og á snappinu, svo fylgist endilega með.