Herbergið hans Nóels

13 Nov 2016

Fyrsta verkefnið mitt eftir að við fluttum aftur í bæinn var að hanna herbergið hans Nóels. Ég er svo ótrúlega ánægð með útkomuna og mig langar að deila nokkrum myndum með ykkur. Þið fáið aðeins að sjá smá part af því þar sem rýmið er bæði barna- og gestaherbergi. 

Þessi færsla er ekki kostuð á neinn hátt

Ég á alveg eftir að sýna ykkur allt herbergið með tímanum. Ég nota t.d. tvöfalda malm kommóðu undir fötin hans, en ég á eftir að setja mitt touch á hana og gera hana minna ikea-lega. En ég lofa að sýna ykkur heildarútlitið á herberginu þegar ég klára það. Núna verður smá sneak-peek að duga.

Mig langaði að hafa herbergið svolítið skapandi fyrir litla manninn og alls ekki allt svart & hvítt. Veggmyndirnar vildi ég hafa dálítið kjánalegar og skemmtilegar, fígúrur sem eru frekar klaufalegar heldur en fullkomnar. Eftir því sem ég skoðaði meira á pinterestinu góða, þá varð ég hrifnari af dekkri húsgögnum í gauraherbergi. Hvítur eða ljós viður er meira krúttlegra og gæti verið of krúttlegt fyrir hann eftir nokkur ár. Litaþemað er mjög einfalt og tímalaust: svart, dökkgrátt, ljósgrátt, mintugrænt, ljósbrúnt og hvítt. 
 

Liturinn á veggnum er frá Slippfélaginu og heitir SANDUR. Hann er reyndar mikið hlýrri í persónu en á myndunum þar sem ég er aðeins búin að vinna þær til. Við enduðum á þessum lit eftir að hafa farið í gegnum margar prufur. Á þeim tíma sem við máluðum var ég ófrísk og við vildum alls ekki vita kynið svo að við völdum neutral lit sem passaði báðum kynjum. Þegar Nóel verður aðeins eldri þá verður klárlega settur einhver dekkri og dýpri litur á herbergið. 

__

Ég bjó til einskonar óróa í horninu sem ég föndraði með skrilljón límmiðum & þolinmæði.

Þvottabjörninn er frá AMIKAT og er til í SIRKUSSHOP.
__

Stjörnumerkjaplattinn er frá NOSTRA í Vestmannaeyjum, hann fæst líka í hvítu. 
__

Ör límmiðinn kemur frá Ferm Living og fæst í HRÍM.
__

Mörgæsina fékk ég í PÓLEY, þessi lína er mega krúttleg og það fást allskonar dýr í mismunandi stærðum. Það er mjög þungt í þeim enda eiga þau að geta gegnt því hlutverkum að vera hurða- og bókastopparar.

 

Borðan/veggfóðrið föndraði ég sjálf   -   NOTE: Don´t do it.
Þetta tók mig óralangan tíma og ég þurfti oft að byrja upp á nýtt og endurraða þessu aftur. Ég notaði s.s hvítt teipi og þurfti að skera það mjög svo nákvæmlega svo að þetta myndi allt saman falla rétt saman. Ég raðaði síðan hverjum "bita" fyrir sig. Eeeen þetta kemur svo vel út að allt sem fór úrskeiðis á meðan þessu stóð gleymist. 

Ég prófaði Ali Express í fyrsta skiptið til þess eins að panta þetta veggskraut og þessa ísbjarnarmynd. Gæti ekki verið ánægðari með kaupin. Ég bætti einnig taupokanum við Ali-körfuna mína sem má sjá hér fyrir neðan.

 

Náttborðið og húsið fékk ég í BYKO

Pöndumyndina fékk ég í MINIMO.
__

N O E L stafina fann Marta Rún vinkona í Barcelona og var svo elskuleg að grípa þá með sér. Þeir eiga líklega að vera tímabundið jólaskraut, en eru heilsársskraut á þessu heimili. 

Hillan er frá IKEA, sem ég setti btw sjálf upp! Ég er svo stolt af mér að ég verð að koma því fram að ég setti allt í herberginu sjálf saman, boraði & setti upp. Stjörnulímmiði á mig takk.
__________

Ég er farin að vinna heima og taka að mér ný verkefni, bæði lítil & stór. Ef þig vantar innanhússráðgjöf þá máttu henda á mig línu á sara@femme.is