"Meaty" Mexíkó Súpa

13 Jan 2016

Það er fátt betra en heit og bragðmikil súpa á köldum vetrarkvöldum. Nú ætla ég ekki að eigna mér hugmyndina af þessari súpu þar sem upprunalega uppskriftin er frá Evu Laufey snilling. Þessi útgáfa af henni er hins vegar mjög "meaty" og inniheldur mikið meira af grænmeti. Plús rúsínuna í pylsuendanum : Doritos Chili Heatwave. 

Trikkið við að ná súpunni svona "meaty" er að nota heilann grillaðann kjúkling í stað þess að steikja kjúklingateninga á pönnu. Kjúklingurinn er keyptur heill og eldaður og bringan úr honum svo rifin niður, hann gjörsamlega bráðnar út í súpuna. Þetta dæmi er líka algjört win-win á þessu heimili þar sem bringurnar fara í súpuna og Koby krútt fær kjötið úr leggjunum út á matinn sinn. 

Ég elda þessa uppskrift vanalega fyrir okkur 2 og hita svo afganginn daginn eftir, hún er alls ekki síðri þá. En ég myndi segja að hún dugi fyrir 4 "big eaters" en annars 5-6 manns. 

Hráefnin eru eftirfarandi : 

2 heilir kjúklingar ( bringa rifin niður)

2 gular paprikur

2 rauðar paprikur

2 grænar paprikur

6 stórar gulrætur

1/2 blaðlaukur

5 hvítlauksgeirar

1/2 laukur

1 rautt chilli

1 dós saxaðir tómatar með vökvanum

2 teningar kjúklingakraftur

2 tsk karrý

1.5 lítri vatn

1 peli rjómi ( 280 ml)

150 gr philadelphia rjómaostur

1/2 heinz chilli tómatsósa

 

Grænmetið er saxað smátt og sett á stóra pönnu eins og á myndinni hér að ofan. Hvílaukinn set ég í gegnum hvítlaukspressu. Örlítið af olíu er hellt yfir og grænmetið steikt í um 10 mínútur þar til það er orðið gljáð. 

Því næst er það sett í stórann pott ásamt vatni, chilli tómatsósu, tómötum úr dós, karrý og kjúklingateningum. Suðan er látin koma upp og látið sjóða í 15 mínútur. 

Á meðan hún sýður er gott að nýta tímann og rífa kjúklinginn niður, húðin er ekki tekin með. Mér finnst best að skella honum í skál og krydda örlítið með salt og pipar. Þegar korter er liðið er hitinn stilltur lágt og kjúklingur, rjómi og rjómaostur sett út í. Súpan er svo látin malla í minnst 30 mínútur þar sem reglulega er hrært í. 

 

Súpan er svo boring fram með rifnum mozarella osti, sýrðum rjóma og muldu doritos chilli heatwave ( svarti pokinn). 

 

xxx