FYRIR & EFTIR breytingar hjá Söndru Sigurjóns - INNLIT

12 May 2015

Gífurlega fallegt innlit! Það er greinilegt að það eru smekk manneskjur og fagmenn hér á ferð - Sjáið myndirnar.


Ég rakst á þessar fallegu breytingar sem voru gerðar á heimili í Noregi og ég bara varð að fá að vita meira og deila innlitinu með ykkur. Eigandinn hún Sandra var svo elskuleg að svara nokkrum forvitnilegum spurningum um breytingarnar og gaf mér leyfi til að birta fyrir og eftir myndir af heimilinu.

 

Kynnumst Söndru: Ég heiti Sandra Sigurjónsdóttir og er menntaður hárgreiðslusveinn frá Vestmannaeyjum, ég vann lengi vel á hárgreiðslustofunni Sjoppunni í Bankastræti þar sem ég fluttist snemma frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur til þess að sækja hárgreiðslunám. Ég er í sambúð með Torfinn Aamodt sem er faglærður smiður en hann er fæddur og uppalinn í Sykkylven í Noregi. Ég á tvö börn, Hafdísi Ósk 8 ára frá fyrra sambandi en saman eigum við Torfinn einn lítinn snúð, hann Bjarka 1 árs. Þegar við Torfinn kynntumst þá bjó ég á Íslandi og hann í Noregi en fljótlega ákvað hann að koma til Íslands og búa þar með okkur mæðgum. Við bjuggum því saman á Íslandi í tvö ár en það var alltaf ætlunin að flytja einhverntímann til Noregs. Við keyptum okkur fallega íbúð á Langholtsveginum í Reykjavík og vorum búin að koma okkur ofsalega vel fyrir, ég meira að segja sagðist aldrei ætla að selja þá íbúð því okkur leið svo vel þar - aldrei að segja aldrei ;) Allt síðasta sumar ákváðum við svo að vera í Noregi þar sem við vorum bæði í fæðingarorlofi og gátum þar að leiðandi bara haft það kósý saman í norska góða veðrinu. Þá kom fiðringurinn um að flytja út, við fórum að skoða fasteiginir bara svona upp á gamanið þar til þetta datt upp í hendurnar á okkur ef svo má að orði komast. Við náðum að selja Langholtsveginn á einu augabragði og keyptum Lerstadvegen í Ålesund í október 2014, vorum öll fjölskyldan flutt út í desember 2014 þar sem öll vinnan hófst og svo loks flutt inn nýuppgert húsið í febrúar 2015.

Hversu miklar breytingar gerðuð þið á eigninni? Í byrjun þurftum við að fara í allsherjar rif, henda bókstaflega öllu út þannig að eignin var nánast því fokheld. Húsið er byggt árið 1965 og er standard hús í Noregi, allt úr timbri. Það var því allt orðið úr sér gengið, ónýtt og ljótt. Við þurftum að leggja mikla vinnu og breytingar á öllu sem við kom húsinu fyrir utan baðherbergið þar sem fyrri eigendur höfðu dyttað lítillega upp á það þannig það var vel nothæft og ágætlega út lítandi en það er á tveggja ára planinu að taka það í gegn og byggja örlítið við húsið. Við endurskipulögðum hæðina mikið þar sem við gerðum eitt auka herbergi, rifum niður veggi og stiga þannig að skipulagið og eignin sjálf fengu að njóta sín mun betur.

Leituðuð þið til aðstoðar hjá fagfólki eða gerðuð þið mikið sjálf? Við erum svo heppin með vel handlagna menn í okkar fjölskyldu þannig við gerðum allt sjálf að undanskyldum píparanum sem við fengum og borguðum auðvitað morðfjár fyrir. Torfinn er lærður smiður og tengdapabbi líka þannig þeir feðgar unnu og unnu langt frameftir nóttu. Svo má ekki gleyma honum Bjarka bróður mínum sem sá um alla málningarvinnu og meira til. Þeir eru náttúrulega snillingar þessir þrír, ég er mikið lánsöm að eiga þá í lífi mínu.

Hvað sóttiru helst í innblástur sem kom að hönnuninni? Eftir að við byrjuðum á þessu öllu saman þá fór hausinn á flug, ég legg mikið upp úr því að hafa fallegt heima hjá mér og er mikið fyrir þetta skandinavíska look. Ég vafraði mikið um netið og þá aðallega Pinterest þar sem ég fékk margar hugmyndir og framkvæmdi síðan eftir þeim. Þetta með svart, hvítt og hráan við heillar mig!

Hvað tóku breytingarnar langan tíma? Believe it or not, þessu rumpuðu snillingarnir mínir af á 10 vikum, samhliða vinnunum sínum. Ég sá svo um framhaldið, að decorate-a og sjá til þess að allt liti út eins og það ætti að vera og rumpaði því auðvitað af á núll einni.

Áttu þitt uppáhalds rými í húsinu? Já, það er erfitt að gera upp á milli sjónvarpsholsins og snyrtiborðsins en ætli ég verði ekki að vera samkvæm sjálfri mér og segja sjónvarpholið. Það er svo kósý að sitja þar í dúnmjúkum sófanum og geta horft yfir allt húsið, sjónvarpið og útsýnið úr þessum fallegu gluggum sem prýða holið.

Áttu þitt uppáhalds húsgagn eða þinn hlut á heimilinu? Þarna fær snyrtiborðið mitt klárlega vinninginn. Það er algjört must fyrir konur að hafa smá svona snyrtiaðstöðu fyrir sig með góðri lýsingu, en hvort tveggja var keypt í Ikea þannig það þarf ekki að leita langt að slíku djásni.

Eftiráhyggja er eitthvað sem þú sérð eftir að hafa gert öðruvísi eða ekki gert? Nei, veistu það er engin eftirsjá - alls ekki, ekki enþá allavega. Það eru nokkrir hlutir sem enn eiga eftir að klárast, eins og til dæmis eigum við eftir að fá okkur ofn (kamínu) sem verður staðsettur í miðju rýmisins, það verður held ég svona punkturinn yfir i-ið.

Einhver tips að lokum fyrir fólk sem eru að fara í slíkar framkvæmdir? Undirbúið ykkur vel, verið þolinmóð! Þetta reynir ekkert síður á andlegu hliðina eins og þá líkamlegu en þegar öllu er lokið þá er þetta allt svo veeeel þess virði. Gangi ykkur vel.

 

FYRIR
__________

 

 

 

EFTIR
__________

 

 

Vá - Allt þetta á ekki nema 10 vikum! 

__________

Innilega til hamingju Sandra, Torfinn og fjölskylda með þetta fallega heimili ykkar, þið megið vera ótrúlega stolt af þessu verkefni ykkar.
Gangi ykkur allt hið besta og takk fyrir að deila þessu með okkur - xx 

Xs

#beforeandafter #innlit