Asíusúpa

14 Oct 2014

Það voru veikindi á heimilinu mínu þessa vikuna og því reyndi ég að elda ekta góða veikindasúpu með engifer og chilli.

Ég elska að fá mér súpu á veitingastaðnum Asía á Laugaveginum og í vikunni ákvað ég að reyna að gera mína eigin útgáfu af súpunni og fékk auðvitað innblástur og hugmyndir frá súpunni þeirra. Súpan er einföld og svona ekta vetrarkvefsúpa.

 

 

Það sem þú þarft í súpuna er :

 

1,5 lítri vatn eða nóg í stóran pott

2 teningar kjúklingarkraftur

2 kjúklingarbringur

Kínakál

2-3 Gulrætur

Blaðlaukur

Engifer

Chillimauk

Eggjanúðlur

 

Mér finnst þessi súpa mjög góð og mun ég notast við þessa uppskrift sjálf aftur. Þetta er í rauninni súpa sem þú getur algjörlega stjórnað sjálfur hversu mikið grænmeti þú villt hafa og svo berðu hana fram með chillimauki og engifer þannig að hver og einn getur ráðið hversu sterk og hversu mikið engifer er í súpunni.

Chillimaukið fékk ég í Krónunni en er líklega til í öllum búðum og er frá Blue dragon og lítur svona út.


 

 

1. Sjóðið vatnið og setjið teningana í pottinn og smá salt

2. Skerið kjúklinginn í litlar ræmur á meðan vatnið er að sjóða.

3. Skerið grænmetið niður, gulræturnar í þunnar sneiðar, blaðlaukinn og kínakálið bara frekar gróft.

4. Þegar vatnið er farið að sjóða bætið einni góðri teskeið af chillimaukinu við og smakkið til.

5. Hellið kjúklingum í pottinn og lokið pottinum og sjóðið kjúklinginn.

6. Hitið vatn í hraðsuðukatli og setjið eggjanúðlurnar í stóra skál, magnið fer eftir því hvað margir eru að borða. Hellið síðan vatninu í skálina.

7. Athugið hvort að kjúklingurinn sé ekki tilbúin og ef hann er það þá helliði grænmetinu í súpuna og látið malla í smá stund. Ég slökkti á hellunni þegar ég setti grænmetið í því ég vildi ennþá hafa það hálf ferskt en ekki of soðið því mér finnst það betra.

8. Sigtið núðlunar frá vatninu og leyfið þeim aðeins að þorna og setjið þær síðan í botninn á skálunum sem þið ætlið að bera súpuna fram í, magn núðlanna er bara smekksatriði. Núðlunar eiga að líta út fyrir að vera ekki alveg tilbúnar en þær haldast síðan áfram að eldast þegar heitu súpunni er hellt yfir.  Ég persónulega vil ekki of soðnar núðlur.

9. Núna ausið þið súpunni yfir núðlurnar með nóg af grænmeti, kjúklingi og soði.

10. Berið fram með niðurskornu engiferi og chillimauki svo að hver og einn geti smakkað sína súpu til.

Mín súpa endar oftast á því að verða alveg rauð af öllu chillinu.

 

Marta Rún